Monday, July 31, 2006

 

Evrópureisublogg-27 árum seinna.

Margir halda út bloggsíðu á ferðum sínum erlendis,hef verið að glugga í nokkrar hjá ættingjum og vinum, undanfarið.Við félagarnir áttu ekki kost á því fyrir 27 árum síðan, ekkert www í þá daga.Við héldum þó ítarlega dagbók, sem birt verður hér í næstu færslum, nokkrar í einu.Við vorum semsagt þrír á ferð;GI,GG og MÓ.
Þetta var ferðasagan eins og við skráðum hana eftir bestu getu:

Föst. 10.08.79.
Kl 23.51 komum á Hótel Höfn. Búnir að keyra frá kl. 15.00. GG keyrði á Hrífunes og GI á Höfn. MÓ byrjaði að drekka um sex-leytið í Vík og GG stuttu seinna. GI keyrðði eins og vitleysingur. Skoðuðum Skaftafellsjökul og Breiðamerkjökul. Áttum placið þegar við komum á Höfn. Dömurnar á bensínstöðinn alveg óðar að fá okkur á ball. Skráðir sem Heimsborgarar og Hamborgarar.

Laugardagur 11.8
Lögðum af stað frá Höfn 10.30. Allir við góða heilsu. Komum við á Breiðdalsvík og heimsóttum Helga og fengum kaffi. Næst fórum við á Egilsstaði og þá var púströrið farið við aftari hljóðkút og tókst að gera við það til bráðabirgða á hjólbarðaverkstæðinu (með kókdósum og hosuklemmum). Næst kom Seyðisfjörður. Óíslenskt yfirbragð yfir bænum. Fengum okkur þar að borða og hringdum allir heim. Komumst klakklaust um borð (í Smyril) og sjóferðin var hin besta. Aðeins einn annar íslenskur bíll um borð.

Sunnudagur 12.8
Klukkan 12.00 staddir um borð og Færeyjar í augsýn. Eftir komuna fórum við að keyra um og skoða svæðið en það tók aðeins tvo tíma. Við hlustuðum á Hermann Gunnnarsson lýsa ÍA-Valur. Óhemju rigning. En við erum svalir og fórum því auðvitað í göngutúr. Við drukkum kaffi hér og þar og fórum í bíó með Doris Day. Svo létum við okkur leiðast þar til Smyrill kom og fórum um borð um tíuleytið og náðum kojum. Hittum Sibba um borð. Vorum á barnum til 01.30 og fórum svo að sofa. GI varð örítið veikur. Sváfum vel.

Mánudagur 13.08
Klukkan 12.00 rifumst svolítið og átum svo hádegisverð (GG skammaði GI fyrir að eyða dýrmætum gjaldeyri). Komum í land (í Scrabster) og vorum teknir sem stikkprufa í tollinum. (Sibbi var með bút í vasanum.) Þeir leituðu hátt og lágt og spurðu um græna kortið. Við gerðumst Holliwood-leikarar og þóttumst ekkert vita hvað grænakortið væri “Green card, what’s that ??” Svo var náð í gamla kerlingu frá einhverju tryggingafélagi og hún seldi okkur tryggingu yfir allt Bretland íl 3. mánuði á 39.00 pund. Átum síðan á mjög notalegu Skosku hóteli og héldum áleiðis. Hentum Sibba úr í Inverness. Keyrðum síðan fram á myrkur og tjölduðum í Dalwhinnie í svarta myrkri klukkan 23.30.

Þriðudagur 14.8
Vöknuðum klukkan 10.30, tókum saman og hreinsuðum örítið bílinn. (Vindsængin hjá GI lak bæði til höfuðs og fóta.) Átum í Dalwhinnie og héldum af stað kl 13.00. Komum til Edinborgar um 16.00 og löbbuðum um hana. Skoðuðum Edinborgarkastala og garðin fyrir framan hann. Mikil rigning. Komumst út úr borginni kl 19.00. Komum til Coldingham kl. 22.00 og lentum á blindafyllíi hjá Uncle David (Dave Allen). (Stelpur: Are you on a trawler? Gunni: No, we’re in a tent)

Miðvikudagur 15.8
Tjölduðum í myrkri og börðumst við flugur um morguninn og gátum loks komist í sturtu. Frá Coldingham kl. 12.30 keyrðum allan daginn með tilheyrandi matar og bensínstoppum. Komumst til Luton og gistum á Beverly hotel.

...að sinni.

Comments: Post a Comment



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?