Thursday, August 31, 2006

 

"Litla skinnið".

Lítil frænka er búinn að vera síðustu tvær nætur á sjúkrahúsi,með slæmsku í lungum.Allt er þetta nú að koma hjá henni,enda segja hjúkrunarfólkið að hún sé rosalega dugleg stelpan! Langar bara að senda kveðju til hennar með von um góðan bata.

Thursday, August 24, 2006

 

Á einum tank!


Í morgun hófst hin semi-árlega sparaksturskeppni útvarpsstöðvarinnar FM 98,3. Lagt var af stað frá Smiðjuvegi 14, en þar höfðu keppendur hvílt sig nóttina áður.Hér á mynd sjást þeir einmitt ökumaðurinn, Smári Brundstedt og hjálparkokkur hans,Færeyingurinn Þröskuldur frá Flötum.Keppnin mun bera heitið "Hötum sopann" og er þar skírskotað til hversu eyðslugrannur reiðskjótinn ku vera.Aðalstyrktaraðili keppninnar er bifreiðaverkstæðið Gummámóti sem jafnframt leggur til bifreiðina.Einnig fengust gefnir ferðapunktar frá Ess Helgasyni og Kvenfélaginu á Siglufirði.Síðast þegar fréttist af köppunum, nú rétt fyrir hádegi, voru þeir staddir í kaffihléi á veitingastaðnum "Hveitibjörn". Ekki lá fyrir, hvert leiðin lá eftir það,bara reynt að vera úti að aka. Nánari fregna er ekki að vænta fyrr enn um mánaðarmót.

Tuesday, August 22, 2006

 

Af ritföngum & kartúnum.

Hafði loks upp á gömlum vini,sem ég hafði ekki heyrt í óralengi,næstum 7-8 daga.Það bar reyndar vel í veiði,ef svo má segja, því kappinn sá er á förum erlendis.Það telst eiginlega til tíðinda, að hafa náð sambandi við ÓMJ,sá er haldinn þeim "ósið" að svara bara síma eftir hentugleika.Margoft skotið á hann fyrir það,en læt hann njóta vafans.Samtal okkar var reyndar truflað,Siggi vinnufélagi hringdi og spurði hvort ég hefði nokkuð orðið var við grunsamlegar mannaferðir fyrir utan húsið.Taldi svo ekki vera og innti hann nánar.Svaraði hann til að eitthvað hefði sést af "ritföngum" á ferli.Var ég fljótur til svars,þekkjandi Sigga og sagði sá eini sem hefði verið hér á sveimi,væri "ástfanginn".Spurði ég hann næst,þar sem hann væri nú gamall skipstjóri,hvort hann gæti ekki haft eitthvað betra fyrir "stafni"?

Var að ganga frá að panta heimagistingu fyrir hjónin í Völvufelli,ætla að vera hjá Sigrúnu & Ársæli í Köben:http://www.volosvej.dk/Þau ætla að skreppa í næsta mánuði að sækja heim soninn.

Í tilefni af sigri okkar manna í gær,einn af fjölmörgum í vetur, þá set ég þennan link inná, mörgum veit ég til ánægju og yndisauka! :http://www.sportcartoons.co.uk/spurs70.html . Þykist vita að Rikki bróðir hefur gaman af, nema hann hafi rekist á þetta áður.Hann er duglegur að finna Spurs-síður á netinu, þykist ég vita!

Thursday, August 17, 2006

 

Kormákur?


Rakst á þetta þegar ég var að gramsa í dóti:

Skorri eftir götu rann
hvergi sína Gyðu fann.

Þá hneggjaði hann.

Ragnar bróðir átti að hafa kastað þessu fram, á sínum tíma.Dóra minnti mig á þetta um daginn, þegar umrædd Gyða bar á góma.Sú er og var mikil hestamanneskja.Unnum saman fyrir allmörgum árum við húsbyggingu eina við Holtsbúðina í þá Garðahreppi.Nokkrir minnistæðir samverkamenn voru þar, Randver m.a.,Eiríkur á voffanum hvíta var ógleymanlegur.Við vorum reyndar ansi mörg úr sömu fjölskyldunni, sem unnum við þetta hús, í lengri eða skemmri tíma.Fljótt á litið vorum við sennilega í kringum 7-8 talsins.Þannig var nú það.

Tuesday, August 15, 2006

 

Falur!


Þessi reiðskjótur er falur! Vel með farinn Toyota Corolla árg. 97/98.Ekinn 142.000
2 eigendur, beinsk. 5 gíra, rafm.rúður/speglar, lítur þokkalega út.
Búinn að þjóna sínum eiganda vel síðustu 3 ár.Engar stórviðgerðir þurft.Bara klassa Toyota! Hér til hliðar má sjá 2 aðdáendur! Þó ekki sjáist í framhlutann á þessari mynd, þá er hann í góðu ásigkomulagi.Þetta er ekki felumynd.
Verð ca. 315.000, 300 st.gr.
Hlakka til að heyra frá ykkur!

Monday, August 14, 2006

 

Norðan 5

Það er búið að slá af vinnuferðina í Ófeig, forföll í píparaliðinu.Var samþykkt að fresta framkvæmdum til vorsins.Ég sem ætlaði að klára að mála herbergið uppi í leiðinni.Dóra verður "none too pleased"! Ahhh! Frýs málninginn í vetur? Vona bara að ég fái gallajakkann minn tilbaka.

Talandi um að glata einhverju þarna fyrir norðan; Didda og Dóra hafa enn ekki bætt mér skaðann af forljóta bláa álmálinu sem þær hentu á eldinn í hittifyrra!
Það var óbætanlegur skaði.Þó það væri "sjórekið"!

Nóg.



Tuesday, August 08, 2006

 

Bo

Allir þekkja kynnirinn á stöð 2, þjóðkunnur söngvari. Var bara að velta því fyrir mér hvort fólk nær yfirleitt að skilja/meðtaka þessar kynningar? Stilbragðið sem hann notar er einskonar sambland af hvísli og andvörpum. Sjálfur á ég erfitt með að heyra hvað maðurinn er að segja, veit þó að oftast fylgja kynningunni "hallelúja"lýsingarorð yfir hversu frábært sjónvarpsefni sé um að ræða.Það má deila um það svo sem, en finnst sjálfshólið hjá þeim á 365 stundum vera full "overboard". Líka fer í pirrurnar, þessar síendurteknu staðhæfingar Bylgjunar um að "allir séu að hlusta"! Náttúrulega bara bull, það eru ekki allir yfir sig hrifnir af síbilju. Gæti allt eins keypt diska með Phil Collins,Lionel Ritchie,Rod Stewart,Tinu Turner,Bjögga o.fl. og sloppið við auglýsingaskrumið! Gamla gufan lifi!

Monday, August 07, 2006

 

Jessörí Bob.


Önnur í röðinni af fjórum venjubundnum dagvöktum, í dag.Segist svo hugur að manni drulluleiðist stundum að vera að vinna á rauðum dögum.Sér í lagi í seinni tíð! Á sér reyndar skýringu.Jæja, það er þessi týpa!
Var sérlega ánægður að Dóra var kominn heim frá Tex & Penn, þó eru aðrar kærar frænkur farnar út í staðinn.Þær eru með örverpum sínum einhversstaðar í Þýskaralendum.Frétti að þær tóku sinn tíma að komast á áfangastaðinn: "Where the heck is Ausfahrt,Germany?".Vona að þau hafi það sem best.Sakna þó mín alveg feitt, ekki svo?

Sunday, August 06, 2006

 

Ferðalok.

Föstudagur 7.9
Kl. 15.00. Í Færeyjum tókum við Árna með okkur í bæjarrúntinn. Fengum okkur kaffi á Skýlinu, löbbuðum um og fengum okkur buff og franskar á Loftinu. Eilíft hangs. Smyrill kom ekki fyrr en kl. 00.30. GI, MÓ og GG fengu sér einn bjór og fóru síðan að sofa. Mikið svekktir að hafa ekki getað stolið kamar.(káetu)

Laugardagur 8.9
Reyndum að sofa eins lengi og hægt var því þar var ekkert annað hægt að gera. Létum alla vita vita hversu blankir við værum og allir vorkendu okkur. Slógum lán hjá Árna til að kaupa 2 vodka. GG tók að sér að koma 1 vodka í land fyrir ung hjón og fékk fyrir það ½ vodka. Svo til engin tollskoðun er við komum í land. Fórum beint í félagsheimilið og hringdum allir heim. GG gleymdi veskinu sínu þar. Skiluðum Árna í farfuglaheimilið og héldum síðan beint til Akureyrar með smá stoppi á Egilsstöðum. Komnir til Akureyrar kl. 03.00 um nóttina og sváfum í bílnum.

Sunnudagur 9.9
Vaknað kl. 10.00 þann 9/9 og keyrt í einni lotu til Reykjavíkur. Komnir þangað um 16.30. Fyrsta var farið í Sörlaskjól og heilsað upp á. Allir mjög ánægðir að sjá okkur. Síðan var farið til Svönu. Mikill fagnaður hjá MÓ og Svönu. Faðmlögum og kossum linnti eftir 10-15 mín. og þá þorðu GG og GI að láta sjá sig. MÓ var skilinn eftir hjá Svönu og GG og GI héldu í Aratúnið. Mjög gott að koma heim og vel tekið á móti. Ferðinni lokið um kl 18.00

Ferðin tók samtals 30 sólahringa og 3 tíma.

Þetta var dagbók þriggja ferðalanga, fyrir einum 27 árum síðan.Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá, hjá GI, MÓ og GG.Niðurstaðan eftir þessa ferð: Þrír kolruglaðir, að fara á ótryggðum og vanbúnum bíl að flækjast um Evrópu.Mikið var þó gaman! Update svona í lokin: GI er í dag forstöðumaður meðferðaheimilis fyrir uppgjafa súrrealista, GG rekur í dag keðju gistiheimila í Skotlandi og MÓ rekur ferðaskrifstofu/bændagistingu fyrir sænska athafnamenn.Við hittumst einu sinni á ári á Valhöll,Þingvöllum.Eða þannig....

 

4.kafli.

Föstudagur 31.8
Vaknað kl. 13.30. Þjóðverji kom og spurði um ísl. Mynnt. Fórum út I búð að kaupa í matinn og þá sprakk. Átum kl. 15.00. Létum fixa dekkið og uppgötvuðum að við værum ekkert of ríkir. Fórum að skoða litlu haffrúnna. Fórum þaðan á brautarstöðina og MÓ reyndi að hringja en Svana ekki við. Fórum aftur í tjaldbúðir, dúttluðum eitthvað og tókum síðan lest í miðbæinn og borguðum ekkert fremur venju. Fórum á bar við Istegade sem, við nánari athugun reyndist vera klámbíó af grófustu gerð. Röltlum um og fórum á diskótek á Strikinu. Tókum svo taxa heim.

Laugardagur 1.9
Héldum á Burger King um 12.00-13.00 leitið og MÓ hringdi í Svönu. Héldum til Helsingör og tókum ferju til Helsingjaborgar. Þar leituðu tollararnir aldeilis vel í bílnum en fundu ekkert eftir mikla leit. Héldum til Gautaborgar og gistum í Kåralundi (Kamping áfram, kamping beygja, kamping stop). Fórum síðan í miðbæ Gautaborgar og sáum hvernig laugardagskvöld fara fram. Bölvaður lýður þar og allir fullir. Þar sem við vorum þreyttir og blankir fórum við í tjaldbúðir og sváfum.

Sunnudagur 2.9
Keyrðum beint til Oslóar og gistum á ***tjaldbúðum. Lentum fyrst í rugli með að komast á brautarstöðina til að skipta peningum. Drukkum 2-3 bjóra um kvöldið og fórum að sofa í rigningu.

Mánudagur 3.9
Vöknuðum á floti. GG fékk mjög slæmt kvef og ákvað að skella sér í sturtu. En þar var ung og falleg stúlka að þrífa sturturnar. Það var samt farið í sturtu og stúlkan látin roðna svolítið. Mjög gaman. Jæja, þurkuðum vindsængurnar og héldum af stað áleiðis til Bergen. Norgur sérstaklega fallegt land. Komum um kvöldið til Röldal og gistum þar í hytte. Mjög skemmtilegt.

Þriðjudagur 4.9
Héldum til Bergen um 12.00. Mjóir og krókóttir vegir. Tókum eina ferjuna enn frá Kinnsarvik til Kvanndal og vorum komnir til Bergen um 21.00. Prúttuðum eða sögðumst vera blankir, sem við reyndar vorum og fengum hytte fyrir tvær nætur á 120 krónur. Sváfum vel.

Miðvikudagur 5.9
Ætluðum aldrei að nenna á lappir en fórum loks í búð að kaupa dósamat. Átum, rúntuðum og löbbuðum um Bergen, fundum höfnina þar sem Smyrill kom að og fórum síðan heim í hytten. Gvendur: “Alkaselzer, andskotinn hann Jenni, þetta helvítis alkaselzer og þessir 2 dollarar eru búnir að angra mig alla ferðina !” Borðuðum dósamatinn, síðan löbbuðum við í nánasta nágrenni í ca klukkutíma og fórum síðan aftur heim til að fara í sturtu og síðan að sofa.

Fimmtudagur 6.9
Vöknuðum um kl 09.00 löguðum dósamat og tókum til og skúruðum kofann. Komnir af stað kl. 11.00. Lögðum bílnum niður á bryggju þar sem Smyrill átti að koma og fórum síðan í Alkaselzer leit. Blessaðist. Löbbuðum í rólegheitum um, fylgdust með tveim guttum veiða kattamat og fórum síðan um kl. 15.00 um borð. Veðrið mjög gott og við láum í sólbaði á sóldekki Smyrils. Mjög fáir um borð. MÓ fór á heiftarlegt fyllerí en GG og GI lögðu sig. Um kvöldmat var MÓ orðinn eins og sprellikarl. Mikill veltingur í skipinu og lappirnar á MÓ lentu óvart í matnum hjá GI og maturinn fór út um allt. Áður hafði GI misst bjórinn sinn. En þar sem GI var mjög svangur át hann allt fyrir því.

Tuesday, August 01, 2006

 

3.Kafli

Fimmtudagur 23.8
Vöknuðum kl. 12.30. Áttum góðan og ánægjulegan dag í borginni. Skoðuðum skemmtigarðinn og létum okkur líða vel. Kvöldinu varið í að skrifa dagbók, drekka bjór og gera að gamni sínu og fylgjast með ungbörnum á keleríi.

Föstudagur 24.8
Slóruðum frameftir og fórum á pósthúsið. GG hringdi til Íslands og tilkynnti að allt hefði gengið vel. Lögðum af stað kl.15.00 hressir og kátir frá Auxerre og vorum að spá hvort við ættum að fara yfir til Þýskalands eða vera eina nótt í viðbót í Frakklandi. Fengum okkur að borða! og það varð afdrifaríkt. Fylltum kaggann og lögðum af stað. Þegar búið var að keyra 187 km öskrar GG “Strákar, strákar! Ég gleymdi vegabréfinu og öllum peningunum þar sem við borðuðum” Mikil þögn. Maríus: “Það er ekki nema eitt sem við getum gert eða eitthvað slíkt”. Og það var snúið við. Er við komum á staðinn aftur reyndist draslið vera komið inn í peningaskáp hjá bossinum. GG: “Je ouble mon passport avec ce table aujourd-hui, monsier” Hann: Ah cet bleu? GG: oui. Við löbbuðum á restaurantinn hinum megin við götuna og fengum okkur aftur að borða. GI: “Við erum búnir að keyra 380 km og erum komnir hinum megin við götuna og þar að auki þurfti að springa á bílnum. Það var keypt nýtt radíaldekk á 30.000 kr. Það var lagt af stað aftur 21.00 og keyrt til 01.00 til Dijon. GG keyrði. Sáum hörku árekstur, ákváðum að það borgaði sig ekki að keyra í myrkri og lögðum bílnum og sváfum í honum.

Laugardagur 25.8
Sluppum í gegnum Þýsku landamærin eins og ekkert og héldum til Karlsruhe. Okkur fannst Þýskaland mjög fallegt land. Tjölduðum í Karlsruhe um kl. 16.00-17.00 leitið. Hittum hollenskar stelpur um kvöldið, drukkum mikin bjór. Marri stakk af en GG og GI fundu hann á bar stutt frá þar sem gæinn var orðinn skrambi fullur. Mikið brambolt yfir girðingar. Sváfum vært.

Sunnudagur 26.8
Vöknuðum seint og fórum í sólbað. GI: “Það ætti nú ekki annað eftir en að fara að rigna”. Klukkutíma seinna var komin rigning. Við hentum öllu inn í tjald og fórum í miðbæinn á rölt. Sáum ýmislegt, svosem peep-show. Ákváðum að fara aftur á tjaldstæðið, skipta um föt og fara síðan á það sem við héldum að væri sexy-show. Við komumst að því að peep-show væri eiginlega einn af þessum þýsku sjálfssölum (klefi skermur og fata). Fórum á 3 bari þar sem allsstaðar voru klám kvikmyndir í gangi og síðan á mjög flott diskóek.

Mánudagur 27.8
Átum á Burger King og héldum frá Karlsruhe um 15.00. Komum til Koblenz um kl. 20.30. Fórum á pub og höfðum það rólegt. Vorum síðastir út kl. 23.30. Sváfum.

Mánudagur 27.8
Átum á Burger King og héldum frá Karlsruhe um 15.00. Komum til Koblenz um kl. 20.30. Fórum á pub og höfðum það rólegt. Vorum síðastir út kl. 23.30. Sváfum.

Þriðjudagur 28.8
Skoðuðum bæinn og átum á Macdonalds. Keyrðum svolítið eftir Rínardalnum og skoðuðum hann. Um kvöldið löbbuðum við milli bara. Gvendur sá mikið eftir því að hafa ekki haft 50 mörk á sér …..

Miðvikudagur 29.8
Lögðum af stað frá Koblenz kl. 13.00 eftir að hafa snætt, róterað dekkjum og verið svolítið í sólinni. Lentum á leiðindar villigötum í Köln en héldum þaðan til Hannover. Mikill keyrsludagur. Náðum ekki alla leið til Hannover þetta kvöld, ákváðum því að beygja útaf hraðbrautinni og tjalda í smábæ að nafni Rinteln. Komum þar kl. 20.30. Tjölduðum og fórum svo á pub inni í bæ. Tveir bjórar, síðan lagst til svefns.

Fimmtudagur 30.8
Vaknað kl. 08.00. Átum rúnnstykki og pepsi og höfðum húddið sem morgunverðarborð. Náðum til Puttgarten kl. 13.30 og tókum ferju yfir til Rödby. Fórum yfir Stórstraumsbrú og komum til Kaupmannahafnar um kl. 18.00. Duttum óvart beint niður á Istegade, löbbuðum um hana og keyptum kort á brautarstöðinni. Fundum tjaldstæði um kl. 20.00 og héldum fljótlega í miðbæinn með lest. Fórum í Tívolí og tvisvar hittum við íslendinga án þess að láta vita að við værum íslendingar. Sáum IS bíl á götum á Kaupmannahafnar. Náðum lest heim á tjaldstæði um kl. 00.30. Borguðum ekkert í lestina því við gátum hvergi séð hvar ætti að borga. Sváfum vært.

 

Evópureisa frh.

Fimmtudagur 16.8
Vöknuðum snemma, létum ballansera dekkin og héldum til London. Keyrðum fram og aftur um London og vorum alt í einu komnir á Oxford Street þar sem aðeins leigubílar mega keyra. MÓ: “Hvað eru allir þessir leigubílar að gera hér?” GI: “Oh no !”. Komumst að því að við sluppum við 25 punda sekt og lögðum síðan bílnum. Tókum leigubíl á Victoria Station, lest þaðan til Croydon þar sem tryggingagæinn sagði okkur að við hefðum fengið tryggingarnar ólöglega og að við þyrftum ekkert grænt kort (þar sem við vorum komnir inn í Efnahagsbandalagið). Tókum aftur lest á Victoria og leigubíl þaðan á Trafalgar og löbbuðum þar um. Tókum annan taxa á Madam Toussaud. Flott safn! Fundum bílinn aftur og fundum okkur leið út austur á furðu auðveldan máta. Komum til Harwich kl.22.30 og gistum á Cliff hotel. GI hélt að peningar og passi hefðu fokið en MÓ og GG sýndu þessu lítinn skilnng.Hlóu bara að honum! GI var ekki í góðu skapi!

Föstudagur 17.8
Umborð í ferju til Hollands kl. 10.30. Komum til Hollands kl. 19.00. Engin tollskoðun eða neitt. Fórum beint til Tilburg og bönkuðum upp á hjá Mandy kl. 21.30. Hún var þá nýkomin úr þriggja vikna ferðalagi í Frakklandi og Spáni. Pabbi henna útvegaði okkur tjaldstæði og var mjög almennilegur við okkur. Ástandið var fremur óþægilegt og því nú var Mandy búin að kynnast Frans (27 ára leikfimikennari) og GG passaði ekki beint í leikinn lengur.

Laugardagur 18.8
Boðnir heim til Mandy kl.14.00 og sátum þar og drukkum bjór til 18.00 og fengum síðan stórfínan mat (og GI missti sígó í ávaxtaskálina). Nokkuð skemmtilegur dagur. Um kvöldið fórum við með Mandy og Frans á bar þar sem mikið var drukkið. Þangað kom Ingrid og bað okkur að koma með sér á diskótek þar voru bæði kynvillingar, lesbíur og venjulegt fólk. Við kvöddum Mandy og Frans og fórum með Ingrid. Þetta var nokkuð skemmtilegur og róandi staður (enda veitti ekki af). GI gerðist slæmur í maganum og Ingrid lét keyra hann heim og MÓ fór með (Dræverinn var rallíkall og keyrði vægast glannalega). GG hékk þarna til 04.00 og tók síðan taxa ásamt fleirum.

Sunnudagur 19.8
Lögðum af stað frá Tilburg kl. 14.00. Keyrðum beint í gegnum Belgíu til Frakklands og engin skoðun við landamærin. Loftið í Frakklandi slæmt og lítið skyggni. Keyrðum framhjá kjarnorkuveri og greinilega mikill iðnaður hér í norður Frakklandi. Fundum tjaldstæði í Arras kl 21.30. Lásum brandara úr Playboy og drukkum GT (nema GI sem drakkk GB). GI óhuggulega drukkinn og allt að því …..

Mánudagur 20.8
Úr Arras kl. 12.30. Héldum til Parísar og komum þangað kl. 17.00. Létum þvo íslenska skítinn af bílnum. Komum okkur á hringautobanann kringum París og duttum furðu auðveldlega inn á Versali. (Löggan stoppaði okkur en allt reyndist vera í lagi). Löbbuðum um Versali milli kl. 18.00 og 20.00 og héldum síðan í tjaldstæðaleit og enduðum 50 km fyrir utan París í Rambouillet.


Þriðjudagur 21.8
Vöknuðum seint kl.13.30 og héldum aftur inn í París. Duttum beint á Effel turninn og skoðuðum hátt og lágt. Fengum okkur bjór og pylsu og GG telfdi við páfann í Effelturninum. Þaðan var haldið til Sigurbogans. GI sagðist vel geta hugsað sér að gerast leigubílstjóri í París. Lögðum bílnum og hlupum yfir torgið og áttum fótum fjör að launa. Skoðuðum bogann og héldum síðan á Concord. Skoðuðum síðan Concord og héldum síðan á rúntinn um miðborg Parísar. Menn voru á ýmsum skoðunum um hvað skyldi gera endaði með að bílnum var lagt í útjaðri Parísar og gerður að svefnskála kl. 02.00-03.00. GG hraut hroðalega.

Miðvikudagur 22.8
Er við vöknuðum við hlátur íbúa sem höfðu grandskoðað svefnaðstöðu vora, var einn með hálsríg annar með bakverk og sá þriðji með lappirnar fastar í ákveðinni stellingu. Við héldum þegar af stað kl. 10.30 og þótti snemmt. Héldum áfram suður á bóginn með óákveðið takmark og var úr að tjalda í Auxerre. Tjölduðum í birtu og þótti fágætt. Líkaði vel við staðinn og ákveðum að slappa vel af. Fórum í fótbolta við litla fransmenn og elduðum okkur kássu. Duttum á það og héldum í bæinn í ævintýraleit. Duttum inn í fremur fámennt diskótek. Gerðust þar hin furðulegustu atvik sem ekki skulu skráð hér. Menn lögðust til svefns kl. 04.00-05.00.

...að sinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?